Ólöf Bóadóttir
Ákveðinn efnisbúskaður
2021
Fánaborg, fánastangir, stillansanet, sandblásið grágrýti, steinsteypustoð, borkjarnar, Cisco: biðtónn númer eitt, hljóðkerfi
STAÐSETNING
Á landfyllingunni við Klettagarða á Laugarnestanga
Hvar stöndum við gagnvart öllu þessu grjóti? Landfyllingin á Laugarnestanga samanstendur af um þrjú hundruð þúsund rúmmetrum af jarðefni sem var grafið upp vegna byggingar nýs Landspítala. Á þeim tíma þótti það skásti kosturinn, þar sem ekki þurfti að fara langar vegalengdir með efnið. Í dag virðist landfyllingin vera viðbót við útivistarsvæðið á Laugarnesi en að einhverju leyti er óljóst hvaða þarfir svæðið á að uppfylla í framtíðinni — jafnvel verða þar reistar nýjar höfuðstöðvar Faxaflóahafna. Landfyllingin er því staður í biðstöðu, eitthvað sem við eigum inni, svæði möguleika til handa manninum. Verkið sýnir tilætlunarsemi okkar og vanhyggju gagnvart tímanum og umhverfinu í fjarstæðukenndu ljósi. „Þessi steinn gæti hafa orðið Kolbeini Tumasyni að bana.“
Ólöf Bóadóttir (f. 1994) útskrifaðist með BA gráðu í Myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2019. Hún vinnur alla jafna með efnismikla skúlptúra sem kallast á við tímann og hreyfingu. Í verkum sínum bendir hún á rótgróna afstöðu mannsins við umheiminn.
Hljóðsporið sem notað er í verkinu er samið af Tim Carleton árið 1989.