Anna Líndal

Annars konar tími

2021

STAÐSETNING
Verkið stendur í Naustavogi, nálægt Siglingaklúbbnum Snarfara en einnig er hægt að skoða verkið úr fjarlægð frá Súðavogi eða við Háubakka. Horfið upp og athugið hvort þið komið ekki auga á byggingarkrana í lausagangi.

Verkið er við fyrstu sýn umfangsmikið en einfalt. Það samanstendur af byggingarkrana í lausagangi og appelsínugulum iðnaðarstrappa, en ekki síður byggir verkið á því umhverfi sem umlykur verkið. Kraninn er í lausagangi, hann er ekki nýttur til byggingarvinnu heldur stendur hann einn og leikur sér, hreyfist með vindi, kinkar kolli eða ögrar þeim krönum sem staðsettir eru hinum megin við ána, í miðjum byggingarframkvæmdum. Borðinn sem hangir í krananum dansar í vindinum og teiknar hverfular teikningar í borgarlandslagið. Annars konar tími er kveikja að virku samtali eða jafnvel núning við borgarlandslagið, hvatning til að staldra við, líta upp og í kringum okkur. Hvaða ferlar eiga sér stað þarna á svæðinu? Hvaða umbreyting er í gerjun? Hvernig er samfélagslegt gildismat búið til?

Anna Líndal hefur verið sjálfstætt starfandi myndlistarmaður í 30 ár. Verk hennar einkennast af sterkum samfélagslegum tilvísunum, hún kortleggur hversdagslífið og hverfulleikann þar sem hún finnur bæði límið sem heldur öllu saman og kjarnann að árekstrum samtímans. Verkin fjalla fjalla um gamalgrónar hefðir, ósýnilegt vald sem stýrir en ómögulegt er að sjá
eða staðsetja hvaðan valdið kemur eða hvernig samfélagslegt gildismat verður til. Mörg verka Önnu fjalla beint eða óbeint um víxlverkandi samband manns og náttúru. Þar byggir Anna mikið til á eigin upplifun með nátturunni og þátttöku í leiðöngrum með vísindamönnum, hún skoðar ferla nátturunnar sjálfrar og samband rannsakandans við viðfangsefnið. Pólitískt hlutverk nýjustu tækni og siðferðilegar hliðar loftslagsbreytinga eru henni hugleikin en úrvinnslan er ávallt í samspili við þá sjónrænu þætti sem myndlistin hefur byggt á í gegnum aldirnar; myndbyggingu, litasamsetningar, staðsetningu í rými, auk þáttum sem leitast við að tengjast áhorfendum í gegnum breytingu á og örvun skynjunar þeirra á aðstæðum og rými.