Ólafur Sveinn Gíslason

Mæri

2021

Viður, steypa, hátalarar, vatnslitir, plexígler, pappír.

STAÐSETNING
Veggur á lóðarmörkum Hrísateigs 16 og á grindverkjum nærliggjandi húsa. Vinsamlegast gangið ekki inn í garðana.

Verkið Mæri er staðsett inni í kjarna íbúðarhúsa, á lóðarmörkum íbúa við götuna. Hjarta verksins er veggur við Hrísateig 16, þar sem hægt er að hlusta á tvo einstaklinga tala sín á milli um einkarými sín og foreldrahlutverkið sem þau hafa nýlega stigið inn í, og áhrif þess á tíma þeirra og daglegt líf. Samtalið, sem er byggt á samtölum listamannsins við barnafólk í hverfinu, flæðir svo inn í vatnslitamyndirnar sem hanga á grindverkjum nærliggjandi húsa. Verkið grípur anga af undirliggjandi taugakerfi hverfisins og opnar fyrir sýningargestum: Persónuleg rými ungra foreldra, hvernig þau skarast og hvar mörk einstaklingsins liggja innan fjölskylduheildarinnar.

Ólafur Sveinn Gíslason (f. 1962) lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1983 og Hochschule für bildende Künste í Hamborg árið 1988. Verk Ólafs einkennast af samskiptum listamannsins við samfélagið, virkni þátttakenda við sköpun verkanna sjálfra, aðstæður áhorfenda og staðinn sem unnið er með hverju sinni. Verk hans snúast oftast um ákveðnar aðstæður, þar sem reynsla einstaklingsins fléttast við almennar samfélagslegar spurningar. Kjarni hvers verks er alltaf einstök reynsla og/eða saga þáttakanda sem ber með sér margbrotnar víðari tilvísanir. www.olafurgislason.net