Finnur Arnar

Innilitir

2022

Málning

TÍU STAÐSETNINGAR

Bókhlöðustígur 2
Grundarstígur 3
Grundarstígur 9
Laufásvegur 3
Laufásvegur 4
Laufásvegur 4a
Skólastræti 5
Þingholtsstræti 14
Þingholtsstræti 13
Þingholtsstræti 16

Verk Finns Arnars Innilitir er staðsett við tíu valin heimili í Þingholtunum, svæði sem listamaðurinn lýsir sem hálfgerðri eyju í miðbæ Reykjavíkur. Hann hefur fengið aðgang að hinu persónulega rými heimilisins og varpar fram vísbendingum um innviði þess með litaskala sem málaður hefur verið á pílára grindverksins sem tilheyrir viðkomandi húsi. Hvert litróf markast af vissri litgreiningu Finns Arnars á heimilinu þar sem skalarnir byggja á skönnun lita innanhúss. Málaðir pílárarnir veita því sýn inn fyrir útveggi húsanna og fá grindverkin sem tilheyra húsunum annað hlutverk en eingöngu það að afmarka landsvæði hvers húsnæðis. Þau veita gestum og gangandi innsýn í persónulegan heim „eyjaskeggjans“ í Þingholtunum.

Verk Finns Arnars (f. 1965) má segja að verði til úr efni og aðstæðum hversdagsins og hafa gjarnan sjálfsævisögulega skírskotun en hann hefur bæði unnið að sýningum með fjölskyldu sinni og gert fjölskyldubönd sín að inntaki listaverka. Finnur Arnar hóf nám við skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands en útskrifaðist úr fjöltæknideild árið 1991. Hann á að baki langan og fjölbreyttan feril á vettvangi íslenskra sjónlista og starfar jöfnum höndum sem myndlistarmaður og leikmyndahöfundur, leikstjóri og rithöfundur. Finnur Arnar hefur verið margoft verið tilnefndur til Grímuverðlaunanna fyrir störf sín í leikhúsi og hlaut Grímuna fyrir leikmynd í verki sínu Engillinn árið 2020. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga ásamt því að taka þátt í samsýningum hér heima og erlendis og verk hans má finna í safneignum helstu safna á Íslandi.

finnurarnar.com