Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar

Minnismerki um gengisfellingar á níunda áratugnum

2022

Steypa

STAÐSETNING

Arnarhóll við Ingólfstræti

Verk Geirþrúðar, Minnismerki um gengisfellingar á níunda áratugnum, á Arnarhóli aðeins steinsnar frá Seðlabanka Íslands, er tilraun til að myndgera óefniskennt kerfi hagkerfisins og sögunnar. Þessi kerfi tengjast framleiðsluferli og fjármagnsvæðingu sem hófst á 20. öld, en líkt og mörg fyrri verka Geirþrúðar hefur það samfélagslega skírskotun þar sem hún afhjúpar þá samfélagsgerð sem við lifum í. Verkið fjallar um gengissveiflur og gengisfellingar á Íslandi á því tímabili sem titillinn vísar til. Listamaðurinn gefur sér skapandi leyfi til myndrænar túlkunar, með táknum og formum sem vísa til tiltekinna bygginga á tímabilinu 1981-1987, og einkennandi stílbrigða byggingalistar níunda áratugarins. Flísalagðar einingar minna okkur óneitanlega á heimilislegar innréttingar tímabilsins en Geirþrúður byggir þær jafnframt á fagurfræði og sjónrænum minnum úr reiknilíkönum, línuritum og hnitkerfum sem notast er við í fjármálaheiminum.

Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar (f. 1977) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2002 og lauk MFA í myndlist við Konsthögskolan í Malmö árið 2005. Hún hefur unnið að margvíslegum verkefnum og haldið sýningar víðsvegar um heim. Sem dæmi má nefna sýningar í Museo La Tertulia (CO), W139 (NL), Cosmos Car, Overgaden (DK), Kunstverein Ingolstadt (DE), og Kunstverein Milano (IT), og hér heima í Suðsuðvestur, Hafnarborg, Listasafni Reykjavíkur og Nýlistasafninu. Hún hefur tekið þátt í Internationales Künstlerhaus Villa Concordia og er jafnframt ein fárra Íslendinga sem hefur verið valin í hina virtu residensíu Rijksakademie van Beeldende Kunsten í Amsterdam.

geirthrudur.com