Emma Heiðarsdóttir

Höggmyndaleit
a) Oops A Daisy
b) Blóm bifast
c) Rúllandi kúla
d) Vatnsleiðsla
e) Undir sólum

2022

Blönduð tækni

FIMM STAÐSETNINGAR OG SLÓÐ
sculpture-hunt.com

a) Almenningsgarður að baki Ægisíðu og Fornhaga
b) Göngustígur á milli húsa við Fornhaga að baki Ægisíðu
c) Göngustígur frá Kvisthaga að Ægisíðu
d) Fótboltavöllur að baki Ægisíðu og Hofsvallagötu
e) Fótboltavöllur að baki Ægisíðu og Hofsvallagötu

Höggmyndaleit er röð verka þar sem raunveruleikinn og stafrænn veruleiki mætast. Emma Heiðarsdóttir býður áhorfendum í göngutúr um Vesturbæ Reykjavíkur, með leiðbeinandi kort í símanum og möguleikann á að safna listaverkum í stafrænan poka á vefsíðunni sculpture-hunt.com. Sum verkanna eru eingöngu sýnileg á stafrænu formi og unnin í tengslum við staði á kortinu, á meðan önnur eru áþreifanlegar höggmyndir. Öll eiga verkin það sameiginlegt að krefja áhorfandann um að vera á staðnum líkamlega til þess að eiga kost á því að upplifa verkið.

Verk Emmu Heiðarsdóttur (f. 1990) verða gjarnan til út frá hugleiðingum um breytileg mörk skúlptúrs og arkitektúrs, listar og lífs. Hún notast við fjölbreytta miðla en verkin byggjast gjarnan á inngripi í þau rými eða umgjörð sem hún sýnir í hverju sinni og snúa upp á viðtekna sýn okkar á umhverfið. Emma nam myndlist við Listaháskóla Íslands 2010-13 og stundaði framhaldsnám við listaháskólann í Antwerpen þaðan sem hún útskrifaðist 2018. Árið 2020 hlaut hún tilnefningu til hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir einkasýninguna Jaðar í D-sal Listasafns Reykjavíkur. Auk þess hafa verk Emmu meðal annars verið sýnd í i8 Gallery, Listasafni Árnesinga, Gallerí Úthverfu, Kling & Bang, Gerðarsafni, Kunsthall Oslo og Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn.

emmaheidarsdottir.info