Wiola Ujazdowska
Takmarkalaus vinna
2022
Blönduð tækni
STAÐSETNING
Sjávarsíðan við Ægisíðu
Verkið Takmarkalaus vinna er innsetning pólsku listakonunnar Wiolu Ujazdowska, staðsett nærri gömlu grásleppuskúrunum við Ægisíðu en langt fram eftir 20. öld voru fiskimenn með útgerð grásleppubáta við sjávarsíðuna. Wiola byggir rannsóknir sínar á vangaveltum um erlent vinnuafl sem hefur orðið mikilvægur þáttur í íslensku atvinnulífi. Með verkinu leitast hún eftir að finna samfellu í vinnu manna við heim plantna og sveppagróðurs, sem og ferli rotnunar og moltugerðar. Innan glerkassans sem myndar umgjörð verksins sjáum við hvernig móða, raki og hiti hefur myndast vegna ræktunar sem á sér stað innan hans. Kassinn inniheldur ýmsan efnivið eða hluti sem tengjast tilteknum byggingarsvæðum og innfluttu vinnuafli en Wiola veitir þeim táknræna merkingu. Málmur, textíl, viðarhlutir og steinar teknir úr rotnandi verkamannahúsum frá byggingu álvers á Reyðarfirði; og jarðvegur, steinar og fundnir munir sem hún hefur safnað í nálægð við Hörpu, tónleikahúsið sem reist var í efnahagskreppunni 2008. Eins er þar að finna plöntur eins og brennibergfléttu, arniku og túnfífill – allt plöntur sem hafa þann tilgang að lækna, eða í þessu samhengi eyða. Á sýningunni munu verk Wiola þróast eftir því sem lífrænu ferlin taka við sér og jarðvegur, gróður, plöntur og sveppir ná yfirhöndinni; takmarkalaus vinna náttúrutegundanna sem brjóta niður það sem mannleg vinna hefur skilið eftir sig.
Wiola Ujazdowska (f. 1988 Toruń, Póllandi) vinnur á mörkum félagslegrar myndlistar þar sem hún notast sérstaklega við uppákomur, vídeóverk og aðra miðla. Hún leggur gjarnan áherslu á hópinn sem hún þekkir hvað best - innflytjendur úr verkamannastétt frá Austur-Evrópu – þegar kemur að viðfangsefni verkanna. Aðferðafræðin er innblásin af mannfræði og bókmenntafræði sem beinist að póst-humanískum sjónarhornum á „öðrun“ (e. othering) og heimspekilegum vangaveltum um sjálfsmyndir. Wiola hafnar hefðbundnum leiðum til listsköpunar og leggur áherslu á þátttöku og ýmsar aðferðir til sameiginlegrar sköpunar. Eins notast hún að miklu leyti við endurvinnslu á efnum og hlutum þegar kemur að gerð verkanna til að koma til móts við offramleiðslu í nútímaheimi. Wiola hefur verið verið búsett í Reykjavík síðan árið 2014. Hún hefur verið virk í íslensku listalífi og tekið þátt í fjölda ólíkra verkefna. Hún lauk M.A. í listfræði frá Nicolaus Copernicus háskólanum í Póllandi þar sem hún stundaði einnig nám við myndlistardeild og hafa verk hennar hafa verið sýnd í Bandaríkjunum, Portúgal, Þýskalandi, Póllandi, Slóvakíu og Íslandi.