Ulrika Sparre

a) ALLT ÄR BRA, ALL IS WELL, ALLT Í GÓÐU
b) I CAN ONLY CHANGE THE WORLD AS LONG AS I’M ALIVE

2022

Textaverk

TVÆR STAÐSETNINGAR

a) Héraðsdómur Reykjavíkur, Dómhúsið við Lækjartorg
b) Sæmundargata við Norræna húsið

Textaverk Ulriku Sparre ALLT ÄR BRA, ALL IS WELL, ALLT Í GÓÐU, unnið sérstaklega fyrir Hjólið V í íslenskri útgáfu, er einskonar yfirlýsingarherferð sem birtist borgarbúum á framvegg Dómshússins á Lækjartorgi, Héraðsdómi Reykjavíkur. Verkið spilar á tvíræða merkingu yfirlýsingarinnar en hugmyndin byggir á hinum forna borgarverði eða „kallara“ (e. town crier). Hlutverk kallarans, sem gat verið karl eða kona, var að vakta borgina að nóttu til á meðan íbúar hennar sváfu. Á klukkustunda fresti hringdi hann bjöllu og hrópaði upp tímann og lét vita að „allt væri í góðu.“ Með verkinu kannar Ulrika hugmyndir um einstaklingsbundinn og sammannlegan ótta, og það hvernig fjölmiðlar, tungumál og pólitík hafa áhrif á trú og ótta okkar almennings. Nútíma neyslusamfélag boðar gjarnan falskar lausnir til að róa mannsheilann og bæla ótta okkar en á tímum óvissu tekur Ulrika Sparre upp hlutverk kallarans sem telur okkur trú um skilyrðislaust öryggi og ró.

Með verkum sínum rannsakar Ulrika ýmis atferli, kerfi og félagsleg mynstur sem mynda líf okkar og umhverfi. Hún rýnir sérstaklega í hugmyndir um einstaklingseinkenni mannskepnunnar og áhrif þróunar í átt að einstaklings- og neysluhyggju í nútímasamfélagi, og birtingarmynd trúarskoðana gegnt vísindalegum skoðunum í vestrænum heimi. Skynjun náttúrunnar, æðri sannleikur og andleg upplifun eru meginþemu í verkum hennar eins og textaverkið I CAN ONLY CHANGE THE WORLD AS LONG AS I’M ALIVE við Norræna húsið ber merki um.

Ulrika Sparre (f. 1974) býr og starfar í Stokkhólmi, Svíþjóð. Hún notast við fjölbreytta miðla í listsköpun sinni, m.a. texta, skúlptúr, innsetningar, ljósmyndun, kvikmyndir, gjörninga- og hljóðlist. Sparre hefur undanfarin ár sýnt í Färgfabriken, Listasafni Reykjavíkur, ARTIPELAG, Varbergs Konsthall, Stene Projects Gallery, Index Foundation og Listasafni Árnesinga. Auk þess hefur hún unnið fjölda verkefna í almenningsrými víðsvegar um Evrópu og Kanada. Ulrika lauk B.A. námi frá Gerrit Rietveld Akademíunni í Amsterdam árið 2002 og meistaranámi við Konstfack listaháskólann í Stokkhólmi árið 2004.

ulrikasparre.com