Steinunn Gunnlaugsdóttir

a) Regnbogi - máfur og menn
b) Innan virkisveggja - sést hvorki í fjöll né sjó
c) Úr dagbók lögreglunnar
d) Húslaus drottning - safnari - söng eins og engill - og svo hvarf hún
e) Sólskinsbros pissar á þinghúsið: „Nei, koma ekki aðal fíklarnir, valdafíklarnir!“
f) Æsingsóráðsheilkenni ( ekki úr dagbók lögreglunnar)
g) Enginn skemmtir sér við skemmdarverk

2022

Steypa, texti

SJÖ STAÐSETNINGAR

a) Göngustígur við Sæbraut og Faxagötu
b) Horn Lindargötu og Frakkastígs
c) Horn Egilsgötu og Snorrabrautar
d) Bílastæði við Gömlu Hringbraut og Vatnsmýrarveg
e) Gangstígur við Sæmundargötu og Hringbraut
f) Sæmundargata við Norræna húsið
g) Horn Suðurgötu og Þorragötu

Verk Steinunnar Gunnlaugsdóttur Innan virkisveggja samanstendur af sjö stórum gangstéttareiningum sem dreift hefur verið víðsvegar um miðborgina. Hver eining vegur um tonn að þyngd og handtökin virðast gróf og stundum óreiðukennd en saman mynda steinsteyptar lágmyndirnar einlægan Reykjavíkurljóðabálk. Á yfirborði steypunnar sjást ummerki eftir eitthvað sem átti sér stað, utan sjónsviðsins, eða í skjóli nætur, og texti á málmplötum gefur einnig vísbendingar um tiltekinn atburð. Steinunn sækir innblástur úr ólíkum áttum í hverju verki: persónulegri upplifun, frásögnum og í opinberar dagbókarfærslur lögreglunnar. Lágmyndirnar eiga það þó sameiginlegt að ljá rödd sína þeim sem eru á skjön eða standa á jaðri hins ‚viðurkennda‘ samfélags. Sum verkin eru óbeint tileinkuð manneskjum sem eru, eða voru, á gangi um götur Reykjavíkur.

Af gáskablandinni alvöru tekst Steinunn á við hin fjölmörgu hugmyndafræðilegu og siðferðislegu kerfi sem mannskepnan skapar, fæðist inn í, lifir við og berst gegn. Með því að skoða og berhátta grunnstoðir hins siðmenntaða mannheims verður til efniviður fyrir tilraunir til að ávarpa samtímann. Steinunn Gunnlaugsdóttir (f. 1983) útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2008 og tók þátt í listnámi í menningarstofnuninni Ashkal Alwan í Beirút í Líbanon veturinn 2013-2014. Steinunn var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2018 og hún hlaut verðlaun úr styrktarsjóði Richards Serra fyrir framlag sitt til skúlptúrlistar árið 2021.

steinunngunnlaugsdottir.com