Sean Patrick O’brien
Endurheimtandi afl
2022
Blönduð tækni
STAÐSETNING
Við Norræna húsið
Verk Seans Patricks O’Brien, Endurheimtandi afl, er stoðgrindarhvelfing samsett úr trefja-sementsefni og minnir á einhvers konar framúrstefnulegt hús. Hvelfingin er sjálfbær eining sem gengur fyrir sólarorku en Sean býður gestum að ganga inn og skynja orku sólarinnar á sjónrænan og virkan hátt. Orkan flyst frá sólinni um sólarpanel og verður sýnileg í gegnum útfjólubláan leysinn. Í stuttan tíma viðhelst orkan í fosfórríku efninu sem glóandi lína en hverfur svo hægt og rólega. Hvelfinguna sjálfa byggir Sean á hugmyndum og tækni Einars Þorsteins Ásgeirssonar sem var arkitekt, hugsuður og brautryðjandi í rúmfræðirannsóknum (1942-2015).
Skúlptúrar og innsetningar Seans eru gjarnan gagnvirk eða hreyfanleg (kínetísk) og byggja á ýmsum náttúrufyrirbærum eins segulmagni, skautun ljóss, fosfór og regnbogum. Áhugi hans felst í að takast á við myndlist sem vísindatilraun sem miðlar reynslu af undrum heimsins. Sean býr gjarnan til aðstæður þar sem áhorfandi á í beinum samskiptum við hluti eða umhverfi listaverksins og hefur þannig áhrif á verkin og upplifun þeirra.
Bandarísk-kanadíski listamaðurinn Sean Patrick O’Brien (f. 1985, Kaliforníu) lauk B.A námi við Massachusetts College of Art, Studio for Interrelated Media, árið 2007. Hann býr og starfar í Reykjavík og lauk meistaranámi í sviðslistum við Listaháskóla Íslands 2021. Sean hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum víðsvegar um heiminn og verið mjög sýnilegur þátttakandi í íslenskri myndlistarsenu síðustu ár.