Ragnheiður Gestsdóttir

Súla II

2022

Steypa

STAÐSETNING

Gangstígur við sjávarsíðu Ægisíðu

Verk Ragnheiðar Gestsdóttir, SÚLA II, virkar sem einskonar steinsteypt borgarhlið, umvafið heilagleika og reisn, þar sem það stendur við sjávarsíðu Ægisíðunnar. Hið negatífa rými myndar form súlu, en súlan hefur frá tímum Forngrikkja verið síendurtekið í byggingarlist um allan heim. Súlan hefur í gegnum tíðina verið notuð til þess að vísa til mikilfengleika, valds og auðs, á byggingum stjórnsýslu, bönkum, menntastofnunum og við innkeyrslur þeirra sem meira hafa á milli handanna. Hún vísar einnig til náttúrunnar, mannslíkamans, og upp til himnaríkis eða hins guðlega. Forngrísk menning, eða vagga siðmenningarinnar, er sú arfleið sem vestrænar þjóðir líta til við skrásetningu sögu sinnar. Með því að vísa í, en á sama tíma fjarlægja, hið fallíska tákn og gera súluna að tvívíðu gati, göngum eða óefnislegu fyrirbæri hefur Ragnheiður rutt nýja braut þar sem hún býður áhorfandanum að ganga í gegnum hið gildishlaðna hlið og gerast þátttakandi í endurhugsun og endurritun sögunnar á eigin forsendum.

Ragnheiður Gestsdóttir (f. 1975) vinnur í ólíka miðla; skúlptúr, innsetningar, kvikmyndir og ljósmyndir. Í verkum hennar má greina bakgrunn listakonunnar sem liggur í sjónrænni mannfræði, hún vinnur út frá feminískum grunni með hugmyndir um þekkingarsköpun, gildismat og virði, auk þess sem hún rannsakar og afhjúpar stéttaskiptingu og valdakerfi í samfélaginu. Ragnheiður lauk framhaldsnámi í myndlist frá Bard College í New York árið 2012 og í sjónrænni mannfræði frá Goldsmiths College í Lundunum árið 2001. Verk Ragnheiðar hafa verið sýnd víða, m.a. í Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni, Nýlistasafninu í Reykjavík, Göteborgs Konsthall og Cecilia Hillström Gallery í Svíþjóð, og Southeastern Center for Contemporary Art, Soloway Gallery and Franklin Street Works í Bandaríkjunum. Verk hennar má finna í safneignum helstu safna á Íslandi og einkasöfnum erlendis.

ragnheidurgestsdottir.net