Dagskrá
 
Strappadans og listamannaspjall
22.08.21 Kl. 15:00
Hittumst við Siglingaklúbbinn Snarfara, Naustavogi.
Annars konar tími — Strappadans við Voginn , helgina 21.—22. ágúst

Listamannaspjall með Önnu Líndal, sunnudaginn 22. ágúst kl. 15:00.

Komandi helgi (21. og 22. ágúst) tekur Anna Líndal yfir byggingarkrana við Súðavog. Kranarnir eru þessa dagana notaðir við uppbyggingu á Vogabyggð, nýju íbúðarhverfi í Vogunum en um helgina verða þeir teknir úr gír og í þá hengdir litríkir borðar, sem hreyfast og dansa í vindinum. Yfirtakan er samtal við verkið Annars konar tími eftir Önnu sem stendur hinum megin við Elliðarárnar, inni á athafnasvæði Siglingaklúbbsins Snarfara við Naustavog. Hægt verður að horfa á byggingarkranana frá ýmsum sjónarhornum, meðal annars frá því verki. Annars konar tími ásamt yfirtökunni er hvatning til vegfarenda um að staldra við, líta upp og velta fyrir sér annars konar flæði í borgarlandslaginu.
Sunnudaginn 22. ágúst verður listamannaspjall með Önnu Líndal þar sem spjallað verður um framlag hennar til Hjólsins 2021. Þátttaka er ókeypis og hvetjum við áhugasama um að klæða sig eftir veðri. Safnast verður saman við Siglingaklúbbinn Snarfara, hópurinn gengur síðan saman að verkinu Annars konar tími.

Yfirtakan stendur frá því vinna verður lögð niður á byggingarsvæðinu á föstudagseftirmiðdegi og þangan til mætt er til vinnu á mánudagsmorgni.
Listamannaspjall með Ólöfu Bóadóttur og kvöldganga um hafnarsvæðið
19.08.21 Kl. 20:00
Staðsetning: Á nýju landfyllingunni við Laugarnestanga
Verið hjartanlega velkomin á listamannaspjall með Ólöfu Bóadóttur, fimmtudagskvöldið 19. ágúst kl. 20:00, þar sem spjallað verður um framlag hennar á útilistasýningunni Hjólið — TEYGJA.

Eftir spjallið labbar Sunna Ástþórsdóttir, sýningarstjóri, með gestum að verki Sigrúnar Gyðu Sveinsdóttur við Skarfakletta og Claudiu Hausfeld við Sægarða. Gert er ráð fyrir að gangan sjálf taki rúmlega hálftíma, og mælt er með að gestir klæði sig eftir veðri.
TEYGJA: OPNUN
12.06.20 Kl. 13:00
Landfyllingunni við Laugarnestanga, við verk Ólafar Bóadóttur.
Opnun kl. 13—17

Opnunarviðburðurinn hefst kl. 13:00 með lítilli athöfn á landfyllingunni við Laugarnestanga þar sem verk Ólafar Bóadóttur er staðsett. Hjálmar Sveinsson, formaður menningar, íþrótta- og tómstundaráðs ávarpar gesti, það gera einnig Sunna Ástþórsdóttir sýningarstjóri og Haraldur Jónsson, fyrir hönd sýningarnefndar Myndhöggvarafélagsins.

Þar á eftir munu sýningarstjóri og sýnendur taka á móti vegfarendum við verk sýningarinnar sem dreifast um stórt svæði Laugardalsins.

Kl. 15:00 verður lifandi flutningur í Grasagarðinum á verki Sigrúnar Gyðu Sveinsdóttur.

Listamenn og sýningarstjóri verða á ferðinni til kl. 17:00.