YFIR GULLINBRÚ

HJÓLIÐ 2020 mun eiga sér stað í Grafarvogi og hefur sýningin hlotið tilinn YFIR GULLINBRÚ með vísan í þessa helstu samgönguæð frá miðborg Reykjavíkur yfir í Grafarvoginn, Gullinbrú, svo og í kvæði Bjarna Vigfússonar Thorarensen skálds (1786- 1841), sem bjó um tíma í Gufunesi í Grafarvogi og orti þar m.a. ljóðið „Veturinn“, sem hefst á þessum ljóðlínum: Hver ríður svo geyst á gullinbrúvu.

Hver ríður svo geyst 

á gullinbrúvu

hávan of hifin

hesti snjálitum,

hnálega hristanda

hrímgan makka,

Eldi hreyfanda

undan stálsköflum?


(Ort um 1823)

Þungamiðja sýningarinnar liggur í staðsetningu hennar; Grafarvoginum; legu og landslagi, félagslegum- og sögulegum þáttum, flóru og fánu, fjölbreyttu mannlífi, hverfispólitík og sérþáttum hverfisins. Hugmyndalegur útgangspunktur sýningarinnar er vinna með lífræn ferli, verðandi og stígandi í listferli listamanna í takti við upplifun þeirra á hverfinu og náttúruöflunum, sem eiga sinn þátt í að skapa umgjörð þess og gera það eftirsóknarvert til búsetu og útþenslu fyrir lífsgæði framtíðar.

Sýningin YFIR GULLINBRÚ í Grafarvogi 2020 tekur mið af hröðum og viðamiklum breytingum sem standa yfir og liggja fyrir í þessu hverfi Reykjavíkurborgar sem er einna grænast af hverfum borgarinnar og þar sem miklir byggingamöguleikar eru fyrir hendi en jafnframt möguleikar á að leyfa lífríki staðarins að halda sér og vaxa á sinn eigin lífræna hátt í takti við þá tíma sem full ástæða er til að óttast að glatist að eilífu. Grafarvogur er byggðarsvæði sem enn er möguleiki á að móta töluvert til framtíðar, í takti við óskir íbúa, gesta og landsmanna allra. Þar getur myndlistin haft mikil áhrif, vakið til umhugsunar, varpað upp ófyrirséðum hliðum, búið helgireiti og verndað hreiður, skerpt á hugmyndafræði og meitlað í mjúk, hörð og ósýnileg efni nokkurs konar gullna framtíðarbrú á milli íbúa, ráðamanna, skammtímagesta og móður náttúru.

LISTAMENN:
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
Brynhildur Þorgeirsdóttir
Elísabet Brynhildardóttir
Eygló Harðardóttir
Hanan Benammar
Hulda Rós Guðnadóttir
Klængur Gunnarsson
Rebecca Erin Moran
Vala Sigþrúðar Jónsdóttir
Þórdís Alda Sigurðardóttir

SÝNINGARSTJÓRI:
Birta Guðjónsdóttir