Introduction

English Statement Coming Soon:
Hugmyndalegur rammi sýningarinnar FALLVELTI HEIMSINS leggur út af titli sýningaraðarinnar og vísar í örlaga- eða hamingjuhjólið (Rota Fortunae), sem skoða má sem tákn um framvindu og hringrás lífsíns en einnig í heiminn sjálfan - hjólið sem jarðar-hvel á eilífum snúningi. Sögnin um hamingjuhjólið á rætur í forlagahyggju mannsins þar sem gyðjan Fortúna var talin ákveða örlög manna með því að snúa hjóli sem þeir voru fastir á. Þannig nutu sumir mikillar gæfu í lífinu og aðrir urðu ógæfu að bráð en í táknmynd hjólsins má skynja að maðurinn hafi löngum áttað sig á því að jarðvistin sé ansi fallvölt. Í samtímanum virðist nú sem maðurinn sé einnig að átta sig á því að heimurinn sem hann byggir er forgengilegur. Hugtakið „anthropocene“ (ísl. mannöld) hefur á undanförnum árum í ríkjandi mæli verið notað til þess að lýsa nýju tímabili í sögu jarðarinnar og mannkynsins, þar sem maðurinn er orðinn mótandi afl sem umbreytir og eyðir kerfum jarðarinnar með áður óþekktum hætti. Hvort sem skilgreina á tímabilið út frá kjarnorkutilraunum sem hefjast um miðja tuttugustu öld, vegna losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið sem leiðir af sér hnattræna hlýnun, mengunar úthafanna af völdum plastrusls eða útbreiðslu og fjölgunar hænsfugla í heiminum með tilheyrandi úrgangi svo fátt eitt sé nefnt, er ljóst að á mannöld erum við bókstaflega Á hverfanda hveli.

Hugmyndin sem liggur til grundvallar sýningunni setur á þennan hátt tíma og rými einstaklingsins, æviskeið (lista)mannsins í samhengi við tíma og rými (borgar) umhverfisins, lífsskeið heimsins. Tilgangurinn með sýningunni er að takast á við aðkallandi spurningar um samlíf mannsins með jörðinni og skilning hans á umhverfinu í samtíma sem er undiropinn stöðugum breytingum. Um leið mun sýningin leitast eftir að birta tillögur að svörum við þessum spurningum, allt frá fútúrískum dómsdagsspám til rómantískrar boðunar um nýtt upphaf.

ReykjavÍk 103 & 108
03.06.18 - 18.08.18